UM BÓKINA

Emil Örn, Eyþór Wöhler

Frasabókin á rætur sínar að rekja til ársins 2021 þegar við félagarnir sátum við spil á svölum hótelherbergis á Tenerife. Farið var að hitna í kolunum og samhliða aukinni keppnishörku jókst fjöldi frasa sem við hreyttum út úr okkur á meðan við spiluðum. Mikið var hlegið og spilað fram á nótt, þetta var ógleymanlegt kvöld.

Næsta dag settist í okkur draumur. Hvernig væri að gera eitthvað meira við þessa
skemmtilegu frasa sem við höfðum lært undanfarin ár? Hvers vegna ekki að skrifa frasabók svo að fleiri gætu notið þeirra? Næstu tvö árin lögðum við okkur fram við að safna saman öllum þeim frösum við heyrðum í kringum okkur. Frasar eru alls staðar á flugi. Í skólanum, í vinnunni, í veislum, úti á lífinu, í fjölmiðlum og í daglegu lífi. Við vorum eins og svampar. Við soguðum í okkur allt sem við heyrðum og drógum fram glósubókina til dæmis þegar amma og afi komu í kaffi, því þá féllu gullmolar af vörum. Áður en við vissum af vorum við komnir með yfir þúsund frasa.

Hugmyndin á bak við bókina var ekki aðeins að safna saman frösum og slanguryrðum unga fólksins heldur einnig að brúa bilið milli kynslóða og gera fólki kleift að skilja hvert annað. Þegar táningur mætir til dæmis í kaffiboð til ömmu sinnar og segir: „Amma, ég hef verið að díemma þennan safngrip sem var lengi vel á ratsjánni minni, getur hann joinað ættarmótið?“ Þá svarar amma fullum hálsi: „Þú skalt heldur sitja á strák þínum, rétta úr kútnum og ekki dansa á gröfinni hjá fyrrverandi kærasta þínum.“ Þegar þetta er skrifað er ólíklegt að einstaklingar með svona ólíkan talsmáta skilji hver annan, en þessa frasa má finna
í bókinni og því er það von okkar að eftir lesturinn geti fólk talað saman án hindrana og haft gaman af því.

En hvað er frasi? Við leituðum dyrum og dyngjum að svarinu en fundum hvergi áþreifanlegt svar. Þess vegna bjuggum við til okkar eigin skilgreiningu. Frasi er snjallyrði eða orðalag sem verður vinsælt hjá hópi fólks. Þegar orðalag hefur fengið aukna merkingu og er notað í daglegu tali telst það frasi, í það minnsta í bókinni okkar. Öll þjóðin notast við tiltekna frasa
en aðrir eru notaðir í mun minni hópum.

Við vonum að við lestur þessarar bókar muni fólk tileinka sér frasa sem höfða til þess, jafnt gamla sem nýja. Við upplifum að nýir frasar sem ungt fólk notar séu stundum litnir hornauga en Frasabókin mun vonandi opna augu lesenda fyrir þróun íslenskunnar og tilraunum ungs
fólks með skemmtilegt málfar. Íslenskan er lifandi tungumál. Ný íslensk orð og frasar eru til þess fallin að varðveita málið og mátturinn til að velja og hafna nýjungum í tungumálinu er í höndum okkar allra.

Við erum afar þakklátir öllum þeim sem hafa stutt okkur í því að glósubækurnar okkar séu nú orðnar að virðulegri bók. Við erum aðeins 21 árs peyjar sem byrjuðu að safna frösum að gamni sínu. Okkur langar að þakka öllum þeim vinum og fjölskyldumeðlimum sem hafa tekið
svo vel í þennan draum okkar og kennt okkur frasa. Sumir gengu svo langt að safna frösum á eigin vegum og senda til okkar, margir þeirra enduðu í bókinni og auka fjölbreytni og dýpt hennar. Við vonumst til að bókin hafi góð áhrif á þig, kæri lesandi, að þú munir halda áfram
að glugga í hana um ókomna tíð og leggja þitt á vogarskálarnar við að bæta við ein mestuverðmætin sem við eigum, tungumálið okkar.

Eyþór Wöhler og Emil Örn Aðalsteinsson